Fótbolti

Brann vill fá Aron Elís

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís Þrándarson gæti verið á leið til Noregs á nýjan leik.
Aron Elís Þrándarson gæti verið á leið til Noregs á nýjan leik. getty/Juan Manuel Serrano Arce

Norska úrvalsdeildarliðið Brann hefur áhuga á íslenska landsliðsmanninum Aroni Elísi Þrándarsyni.

Samkvæmt frétt B.T. er Brann í viðræðum við OB um að fá Aron Elís, annað hvort núna eða í sumar þegar samningur hans við danska úrvalsdeildarliðið rennur út.

Aron Elís gekk í raðir OB frá Álasund fyrir þremur árum. Hann hefur leikið 82 leiki fyrir liðið og skorað fimm mörk. Hann hefur spilað þrettán leiki í dönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en aðeins fjórum sinnum verið í byrjunarliðinu.

Aron Elís, sem er 28 ára, er uppalinn hjá Víkingi en hélt út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2014. Hann hefur leikið sautján A-landsleiki og skorað eitt mark, í 1-0 sigrinum á San Marinó í fyrra.

Brann vann norsku B-deildina á síðasta tímabili og leikur því í úrvalsdeildinni í ár. Aldrei þessu vant er enginn Íslendingur í röðum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×